Í gær fór fram fyrirtaka í máli Skúla Mogensen gegn Sveini Andra Sveinssyni, skiptastjóra þrotabús WOW air.
Áður hefur komið fram að Skúli, fyrrverandi forstjóri flugfélagsins, vilji að Sveinn Andri víki. Vill Skúli meina að Sveinn Andri hafi veitt villandi og rangar upplýsingar um búið í fjölmiðlum og vanrækt upplýsingagjöf um skiptakostnað og þóknanir.
Dómari í málinu, Ingiríður Lúðvíksdóttir, tjáði blaðamanni að um fund væri að ræða en ekki opið þinghald og vísaði honum út. Reimar Pétursson, lögmaður Skúla, vildi ekki ræða málið.
Sveinn Andri krefst frávísunar á málinu og vísar til aðildar. „Ég lét bóka að Skúli hefði ekki aðild að málinu þar sem forgangskröfu hans í búið hefur verið hafnað og ekki tekin afstaða til almennra krafna,“ segir Sveinn. „Að mínu mati hefur hann ekki stöðu til að hafa slíka kröfu uppi,“ segir hann. Verður úrskurðað um frávísunarkröfuna í desember.
„Aðalkrafa hans er að ég víki og til vara að sett verði ofan í við mig,“ segir Sveinn aðspurður um kröfur Skúla.
Krefst frávísunar málsins vegna aðildarskorts Skúla

Tengdar fréttir

Sveinn Andri skal endurgreiða 100 milljónir
Hæstaréttarlögmanninum Sveini Andra Sveinssyni hefur verið gert að greiða þrotabúi félagsins EK1923 um 100 milljónir króna.

Vill skiptastjóra WOW úr starfi
Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW air, hefur gert kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur um að Sveini Andra Sveinssyni verði vikið frá störfum sem skiptastjóra þrotabús flugfélagsins.

Krefja Skúla um tæpar 108 milljónir sem fengust frá WOW sjö vikum fyrir gjaldþrot
Um var að ræða arð sem WOW air fékk greiddan frá Cargo Express.