Guðjón Valur Sigurðsson var ekki á meðal markaskorara hjá Paris Saint-Germain sem vann Montpellier, 34-30, í 8-liða úrslitum frönsku bikarkeppninnar í handbolta í kvöld.
Pólski línumaðurinn Kamil Syprzak var markahæstur í liði PSG með níu mörk. Parísarliðið var sjö mörkum yfir í hálfleik, 19-12.
Aron Dagur Pálsson skoraði eitt mark fyrir Alingsås sem vann Ystads, 25-31, í sænsku úrvalsdeildinni.
Aron Dagur og félagar eru með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar. Þeir hafa unnið sjö leiki í röð.
Íslendingarnir hjá Bergischer skoruðu samtals sex mörk þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Balingen-Weilstetten, 29-27.
Ragnar Jóhannsson skoraði fjögur mörk og Arnór Þór Gunnarsson tvö. Bergischer er í 9. sæti deildarinnar. Oddur Gretarsson lék ekki með Balingen sem er í 12. sæti.
