Viðgerðum á Dalvíkurlínu lauk í kvöld og er nú komin spenna á línuna, samkvæmt upplýsingum frá RARIK en RÚV greindi fyrst frá.
Er nú unnið að því að færa álag frá díselvaravélum um borð í varðskipinu Þór yfir á Dalvíkurlínu. Klukkan níu í kvöld hófst vinna við að taka álag af bænum og má búast við allt að klukkutíma straumleysi og rafmagntruflunum frá þeim tíma.
Unnið hefur verið að viðgerðum á Dalvíkurlínu frá því að hún skemmdist mikið í aftakaveðrinu sem gekk yfir landið í síðustu viku. Varðskipið Þór var í síðustu viku sent til Dalvíkur til að sjá Dalvíkingum og nærsveitungum fyrir rafmagni.
Skipið lagðist að bryggju í Dalvíkurhöfn á hádegi á fimmtudag og var rafmagnið komið á bæinn aðfaranótt föstudags.
Rafmagn fór af bænum og sveitum í kring þegar línan varð fyrir miklum skemmdum í veðurofsanum á þriðjudag. Hús kólnuðu, fjarskipti rofnuðu og var ástand víða slæmt. Greint hefur verið frá því að um 30 stæður hafi verið skemmdar á Dalvíkurlínu, sem liggur milli Akureyrar og Dalvíkur.
Landsnet greinir frá því að viðgerðir muni halda áfram á Kópaskerslínu og Fljótdalslínu.
