Skoðun

Foreldrafrumskógur fyrstu áranna

Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir skrifar

Það er rétt rúmlega eitt ár síðan ég varð móðir. Allar heimsins klisjur eru sannar, ég elska son minn meira en ég hélt að mögulegt væri og á sama tíma hef ég aldrei gert neitt jafn erfitt. Ég horfi á hann og mig verkjar af ást og hamingju og er löngu búin að gleyma því hvernig lífið var áður en ég fékk hann í fangið. Ég leiði þó oft hugann að því hvernig hægt væri að gera þetta tímabil þægilegra og enn ánægjulegra fyrir nýbakaða foreldra. Foreldrafrumskógurinn er nefnilega ekki alltaf vinalegur.

Við njótum níu mánaða (bráðum þó tólf!) fæðingarorlofs en eftir þessa níu mánuði er okkur hent í djúpa og kalda laug. Þeir foreldrar sem ekki voru búnir að tryggja sér pláss hjá dagmömmu eða á ungbarnaleikskóla áður en getnaður átti sér stað sitja í súpunni. Það eru þrír möguleikar í stöðunni fyrir flest fólk.

Einn er að sitja um dagmömmupláss í Facebook hóp og senda barnið blindandi til ókunnugrar konu hinum megin á höfuðborgarsvæðinu. Eftirlit sveitarfélaga er afar takmarkað og tilhugsunin um að treysta handahófskenndri manneskju fyrir því dýrmætasta sem foreldrarnir munu nokkurn tímann eiga er ekki auðveld. Annar möguleiki er að setja á sig Samherjahattinn og múta ungbarnaleikskólum. Foreldrarnir með stærstu ostakörfuna eða bestu sætin í Borgarleikhúsið eiga meiri möguleika en en aðrir. Hringja á vikufresti og athuga stöðuna. Vona að Nonni nágranni hafi sagt eitthvað óviðeigandi við leikskólastjórann svo barnið manns eigi meiri líkur á að komast inn en hans. Þriðji valmöguleikinn er að vera heima með barnið þangað til það kemst inn á leikskóla. Sem engin leið er að vita hvenær verður.

Sum börn komast inn á leikskóla í kringum tveggja ára aldurinn sem þýðir að þá hefur annað foreldrið verið tekjulaust í þrettán mánuði. Þrettán mánuðir í samfélagi þar sem báðir foreldrar verða að vera vinnandi nema annar einstaklingurinn sé forstjóri hjá útgerðarfyrirtæki.

 

Strákurinn minn vaknar ferskur klukkan hálf sex, sex á morgnanna. Ég er ekki jafnhress á þeim tíma dags og venjulega nær dauða en lífi af þreytu. Miðað við hans rútínu eru á þessum tímapunkti fjórir til fimm tímar þangað til hann fær sér hádegisblundinn sinn. Úti er niðamyrkur. Og það er kalt. Svo nú hefst tíminn þar sem ég elti son minn í hringinn í kringum íbúðina, loka skúffum, forða honum frá innstungum og lífshættulegu klifri og tek upp dót eftir hann. Það er nefnilega nákvæmlega ekki neitt hægt annað að gera á þessum tíma dags. Það er kolniðamyrkur, kalt og rólóferð ekkert sérstaklega girnileg.

Hver einasta uppeldisstjarna á Instagram er búin að sannfæra mig um að barnaefni í sjónvarpinu muni valda athyglisbresti svo ég sleppi því. Búðir eru lokaðar og bókasöfn líka. Og morgunverðarmenning er ekki til nema í einu bakaríi á höfuðborgarsvæðinu, Bakarameistaranum í Suðurveri, þar sem ég og sonur minn erum vanalega mætt klukkan 6:30 á morgnanna að fá okkur bita með lögreglumönnunum. Ég hef eytt talsvert hærri fjárhæð í rúnstykki og ostaslaufur á síðastliðnu ári en ég er tilbúin til að viðurkenna. Ef einhver er í leit að viðskiptahugmynd þá grátbið ég þann einstakling að opna kaffihús sem opnar klukkan 6 á morgnanna, er með leikhorn fyrir börn, skiptiaðstöðu, þægileg sæti og ætilegan mat. Eða í rauninni bara eitthvað sem opnar klukkan 6 á morgnanna. Ég mæti. Með son minn.

Talandi um mat. Nú reynum við foreldrarnir að borða nokkuð fjölbreytt og erum dugleg að deila því með syni okkar. Hann borðar nánast allt og borðar alltaf það sama og við foreldrarnir. En af einhverjum ástæðum þá skiptir ekki máli hvaða veitingastað ég fer á, barnamatseðillinn er alltaf eins. Hvort sem það er rándýrt og forframað kaffihús á Kjarvalsstöðum eða veitingastaður í Hörpunni sem gerir út á fjölbreytta fæðu, þá eru alltaf kjúklinganaggar og franskar eða hvítt brauð með skinku og osti í boði fyrir börnin. Án þess að vera ólífuolíueinræðisherra sem ofnbakar grænmeti öll kvöld þá af hverju í veröldinni ætti ég að panta eitthvað fyrir barnið mitt sem ég myndi ekki vilja fá mér sjálf? Þurfa börn ekki sömu vítamín og næringarefni og fullorðið fólk? Getum við verið aðeins meira eins og Evrópa og aðeins minna eins og Bandaríkin hvað þetta varðar?

Það má ekki gleyma klæðunum og samfélagslegri pressu á Instagramhæfan barnafatnað. Foreldrar með útrunnið fæðingarorlof flykkjast í Ármúlann sem er orðið einhvers konar Mekka tískumæðra. Þar fást samfellur á sjöþúsund krónur sem barnið vex úr á mánuði eða útatar í banana við fyrstu notkun. Varasjóðurinn þynnist en fataskápurinn stækkar og hver einustu Konges sløjd kaup réttlætir Molo-móðirin með því að hún er búin að bóka bás í Barnaloppunni eftir tvo mánuði þar sem hún mun fá eitthvað af þessum peningum til baka. ,,Hvaða ungbarnamamma vill ekki fá notaðan Jamie Kay nærbol á bumbugullið sitt?” hugsar móðirin og keyrir áfram tvö hundruð þúsund króna Bugaboo vagninn sinn.

En það má ekki gleyma góðu hlutunum, sama hversu litlir eða stórir þeir eru. Ísland er eitt öruggasta land í heimi og ég get róleg leyft barninu mínu að sofa í vagninum fyrir utan næsta kaffihús. Heilbrigðisþjónusta er ókeypis fyrir börn undir tveggja ára og ég fæ strax aðgang að frábærum lækni með litlum sem engum fyrirvara ef eitthvað bjátar á. Matvöruverslanir bjóða upp á banana fyrir litla munna á meðan innkaupaferð stendur og þar sem borgin er hæfilega stór er aldrei langt að fara til ömmu og afa, frænku og frænda.

Ef fæðingarorlofið verður framlengt og sveitarfélög girða sig í brók og koma börnum í almennilega daggæslu á góðum tíma þá er stórt vandamál leyst. Ég legg líka til fríar strætóferðir fyrir foreldra með vagna og kerrur sem rúnta um höfuðborgarsvæðið í leit að einhverju að gera. Ef við sjáum svo sjálf um að hvetja kaffihús til að opna fyrr eða fáum frumkvöðul til að hrinda í framkvæmd ungbarnavænum morgunverðarstað, hækkum í umræðunni um fjölbreytta fæðu til barna og setjum líka ,,like” á Barnaloppubörn og krútt klædd í Lindex fatnaði þá erum við á grænni grein. Þá eignast ég eflaust sjö börn því það er engin sæla eins stórkostleg og sú sem fylgir því að verða foreldri.



Höfundur er viðskiptafræðingur.




Þessi grein er birt í samstarfi við Róm
. Rómur er vettvangur fyrir ungt frjálslynt fólk til þess að láta að sér kveða í samfélagsumræðunni.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×