Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að það hafi gengið hægt að semja um dagskrá þingsins nú síðustu dagana fyrir áætluð þinglok. Hann segir þingflokk Samfylkingarinnar ekki leggjast gegn því að fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur verði tekið á dagskrá fyrir jólahlé.
Mikill hasar var á Alþingi í gær og í fyrradag þar sem tekist var meðal annars á um dagskrá þingsins og ríkisstjórnin gagnrýnd fyrir hversu seint mörg af hennar málum hafi komið til þingsins.
Líkt og fram hefur komið beitti stjórnarandstaðan til að mynda þeim brögðum á mánudaginn að sniðganga atkvæðagreiðslur sem forseti Alþingis gagnrýndi harðlega. „Við í stjórnarandstöðunni höfum reynt að vera málefnaleg í okkar kröfum, við leggjum auðvitað áherslu á það að við fáum eitthvað af okkar þingmálum í gegn, við héldum nú hér uppi störfum langt fram eftir hausti af því að stjórnarmál komu fá og seint inn og okkur finnst eðlilegt að það sé hlustað á það,“ segir Logi.
En er málefnalegt að sniðganga atkvæðagreiðslur til að reyna að ná því fram?
„Stundum, ef að þú ert í samræðum við einstaklinga sem að í rauninni annað hvort hlusta ekki eða mæta fund eftir fund með nýjar og mjög óvæntar kröfur og óskir þá verðum við auðvitað að nota okkar meðul sem við eigum til þess að á okkur sé hlustað,“ svarar Logi.
Eitt þeirra mála ríkisstjórnarinnar sem voru það seint fram komin að samþykkja þarf afbrigði til að taka á dagskrá er fjölmiðlafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra. Logi segir sinn þingflokk ekki standa í vegi fyrir því að það mál verði tekið á dagskrá.
„Við höfum ekki gert neinar kröfur um að það komi ekki fram. Það held ég að hljóti að vera bara innanhússátök í stjórnarliðinu og það er vel þekkt að þar er ágreiningur og ég held að málið tefjist nú fyrst og fremst útaf því,“ segir Logi.

