Samkvæmt heimildum Vísis hafa þeir Sigmar Vilhjálmsson athafnamaður ásamt viðskiptafélaga sínum Óla Val Steindórssyni, sem kenndur er við Hlölla-staðinn, gert tilboð í Huppu-ísbúðirnar. Reksturinn er nú til ítarlegrar skoðunar og ef fer sem horfir gætu kaupin gengið í gegn snemma á nýju ári.
Huppu-ísbúðirnar hafa notið mikilla vinsælda en upphaflega var stofnað til þeirra með ísbúð á Selfossi. Fljótlega færðu rekstraraðilar út kvíarnar og nú eru fjórar ísbúðir undir þessu merki starfandi; í Spönginni, Álfheimum og Kringlunni.
„Þetta er eitt af flottu vörumerkjunum á markaði í dag og við höfum áhuga á flottum vörumerkjum. Margt sem við erum að skoða,“ segir Sigmar Vilhjálmsson í samtali við Vísi. En vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Það væri á viðkvæmu stigi.

