„Hann átti þetta ekki skilið,“ segir Marcus Arbery Sr. um morðið á syni sínum Ahmaud Arbery. Ahmaud var skotinn til bana í Georgíuríki í febrúar þar sem hann var úti að skokka í bænum Brunswick í Glynn-sýslu. Faðir hans segir morðið hafa verið aftöku.
Marcus segir augljóst að rasismi hafi orðið til þess að yngsti sonur hans lét lífið. Hann hafi verið í sakleysi sínu úti að skokka þegar fyrrverandi lögregluþjónn að nafni Gregory McMichael kom aðvífandi með syni sínum Travis. Ekki er vitað hvað fór þeim á milli en McMichael heldur því fram að Ahmaud hafi svipað til manns sem grunaður var um aðild að innbrotum á svæðinu. Þeir feðgar hafi beðið hann um að ræða við sig en hann hafi þá ráðist á Travis. Þá hafi skotum verið hleypt af.
„Ég hef þurft að eiga við rasisma allt mitt líf hérna,“ segir Marcus um lífið í Glynn-sýslu. Hann sé því ekki vongóður um að upplifa réttlæti í málinu en margir hafa vakið máls á málinu eftir að myndband af atvikinu var birt á netinu. Þar á meðal er Joe Biden fyrrverandi varaforseti sem hefur krafist réttlátrar meðferðar á máli Arbery-fjölskyldunnar.
Marcus segir son sinn hafa verið elskulegan dreng sem gerði allt fyrir alla. Hann hafi elskað að huga að heilsunni og umgangast fólk og þekkti hann því nærri alla sem fóru um hlaupaleiðina þar sem hann seinna meir var myrtur. Hann hafi skokkað þá leið daglega og heilsað þeim sem mættu honum.
Myndbandið setti pressu á yfirvöld
Fyrstu tvo mánuðina eftir andlát Ahmaud fékk fjölskyldan engin svör. Málið var til meðferðar hjá þremur héraðssaksóknurum en eftir að tveir þeirra sögðu sig frá því vegna tengsla við McMichael fjaraði það á endanum út án þess að nokkur væri ákærður. Fjölskyldan var miður sín og segir lögmaður fjölskyldunnar þetta vera skýrt dæmi um óréttlæti réttarkerfisins vestanhafs.
„Við getum ekki haft tvö mismunandi réttarkerfi í Ameríku: Eitt fyrir svörtu Ameríku og annað fyrir hvítu Ameríku,“ sagði Ben Crump, lögmaður fjölskyldunnar í samtali við The Guardian.
Tveimur dögum eftir að myndband af morðinu var birt urðu fyrstu handtökurnar í málinu og lofaði rannsóknarlögreglan í Georgíu að rannsaka málið áfram. McMichaels feðgarnir voru ákærðir fyrir morðið í vikunni sem leið, degi áður en Ahmaud hefði fagnað 26 ára afmæli sínu.
Hér að neðan má sjá myndbandið sem um ræðir, en rétt er að vara viðkvæma við því.