Í gærkvöldi höfðu greinst 36 kórónuveirusmit á Vestfjörðum og hefur þeim fjölgað nokkuð síðustu daga. Auk þess sem smitin eru í Bolungarvík og á Ísafirði hafa nú smit einnig greinst í Súðavík-, á Ströndum, og í Reykhólasveit.Alls eru 345 íbúar á Vestfjörðum í sóttkví.

Gylfi Ólafsson forstjóri heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir ástandið í Bolungarvík alvarlegt.
„Á hjúkrunarheimilinu Bergi eru 3 veikir og einn í viðbót er með einkenni og kominn í einangrun. Sjö aðrir íbúar eru í sóttkví. Stór hluti starfsmanna er í sóttkví og í þeim hópi er einnig farið að bera á einkennum. Það verður því sýnataka aftur hér í síðasta lagi í fyrramálið,“ segir Gylfi.
Starfsfólk úr bakvarðasveit hefur verið kallað inn til að manna vaktir á Bergi en ennþá vantar hjúkrunarfræðinga.
„Sérstaklega er álagið mikið í Bolungarvík og ástandið þar er alvarlegt. Bæði vegna sýkingar hjá íbúum og vegna veikinda starfsmanna,“ segir Gylfi.