Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem Sveppi, hefur síðustu tuttugu ár verið einn vinsælasti sjónvarpsmaður landsins. Hann er gestur vikunnar í Einkalífinu. Sveppi sló fyrst í gegn í þáttunum 70 mínútur á Popp TV og síðan þá hefur hann leikið í grínþáttum, kvikmyndum, á sviði og gert ótal þáttaraðir í íslensku sjónvarpi.
Það hefur alltaf verið draumur Sveppa að lesa inn á teiknimyndir og fékk hann einu sinn stóra tækifærið.
„Mig langaði alltaf að verða leikari því mér fannst svo sjarmerandi að tala inn á teiknimyndir,“ segir Sverrir Þór í þættinum sem hefur aðeins einu sinni fengið að tala inn á teiknimynd.
„Ég hef einu sinni verið beðinn um að koma og tala inn á teiknimynd og þá var það vinur minn hann Gunnar Árnason hljóðmaður. Hann fékk mig í prufu, því þú þarft að koma í prufu ef þetta er Disney mynd eða eitthvað þannig. Ég fór í prufu og þeim leyst ágætlega á mig, mönnunum út í útlöndunum. Ég mætti til Gunna félaga og var hjá honum í fimm klukkutíma að lesa inn á teiknimynd og það var ógeðslega gaman. Svo hringdi hann í mig daginn eftir og sagði, Sveppi þetta var ekki alveg nægilega gott og ég ætla bara láta þig vita að ég hringdi í Ladda og hann kom í morgun og gerði þetta á klukkutíma. Og ég var þá rekinn.“
Í þættinum hér að neðan ræðir Sveppi einnig um ferlinn sinn í fjölmiðlum, um það þegar bróðir hans lést af slysförum þegar Sverrir var sjö ára, um fjölskyldulífið, um frægðina, vináttu hans við Eið Smára, kosti hans og galli, komandi verkefni og margt fleira.