Hnefaleikakonan öfluga Mikaela Mayer átti að keppa á fyrsta hnefaleikakvöldinu í Las Vegas eftir að kórónuveirufaraldurinn stoppaði allt en á endanum var það kórónuveiran sem stoppaði hana.
Mikaela Mayer hefur verið tekin af bardagakvöldinu annað kvöld en hún átti að berjast við Helen Joseph á kvöldinu. Aðalbardaginn verður á milli Shakur Stevenson og Felix Caraballo en bardagakvöldið fer fram á MGM Grand hótelinu í Las Vegas.
Mikaela Mayer greindist með kórónuveiruna COVID-19 og er komin í sóttkví. Hún tilkynnti þetta á Instagram síðu sinni í gærkvöldi.
Boxer Mikaela Mayer was scheduled to fight Helen Joseph on Tuesday in Las Vegas. https://t.co/CgJaF0NjyC
— USA TODAY Sports (@usatodaysports) June 7, 2020
Mikaela Mayer er frábær hnefaleikakona en hún hefur unnið alla tólf bardagana á ferlinum og hefur meðal annars haldið WBC-NABF fjaðurvigtarbeltinu síðan 2018.
„Þetta kom mér algjörlega á óvart. Ég er einkennalaus og er komin í sóttkví í burtu frá öllum samkvæmt viðmiðunarreglum. Restin af liðinu mínu voru neikvæð og heilsa þeirra allra er góð,“ skrifaði Mikaela Mayer á Instagram.
Þetta er fyrsta bardagakvöldið síðan öllum dyrum var læst í Las Vegas í mars vegna útbreiðslu veirunnar. Spilavítin opnuðu aftur í síðustu viku og nú er komið að fyrsta bardagakvöldinu.
„Ég hlakkaði svo til að koma með boxið aftur til ykkar og er sjálf mjög vonsvikin, bæði fyrir mína hönd og líka fyrir hönd liðsins míns, stuðningsmanna minna og andstæðingsins. Helen Joseph vann alveg jafnmikið fyrir þessu og ég og við ætluðum að bjóða ykkur upp á sýningu,“ skrifaði Mikaela Mayer.
Hinn 29 ára gamla hefur varið titil sinn þrisvar sinnum í röð þar á meðal á móti Alejöndru Soledad Zamora í október síðastliðnum.
Hér fyrir neðan má sjá færslu hennar á Instagram.