Karlmaður á þrítugsaldri var í dag dæmdur í sjö mánaða fangelsi, þar af fimm mánuðir skilorðsbundnir, fyrir að flytja inn tæplega fjögur kíló af hassi. Maðurinn flutti efnin til landsins í lok nóvember á síðasta ári.
Efnin fundust í botni ferðatösku mannsins þegar hann kom með flugi frá Alicante á Spáni á síðasta ári. Um 3.791,72 gramm var að ræða en efnin voru gerð upptæk.
Maðurinn hafði ekki brotið af sér áður og játaði brot sín skýlaust fyrir dómi. Játningin var virt honum til málsbóta og þótti liggja fyrir að ekkert benti til annars en að hlutverk mannsins hafi einungis verið að flytja efnin til landsins.
Í dómi héraðsdóms Reykjaness kemur fram að maðurinn hafi undanfarna mánuði unnið í sínum málum og lá fyrir vottorð meðferðaraðila um að hann hafi samviskulega unnið bug á neysluvanda sínum.