Skoðun

Ungt fólk á kjörstað!

Eiður Axelsson Welding skrifar

Senn líður að forsetakosningum. Ef ég hefði kosningarrétt þá væri valið augljóst, enda stendur valið í raun á milli stjórnarskrárlegarar óvissu miðað við yfirlýsingar ágæts forsetaframbjóðanda Guðmundar Franklín Jónssonar eða áframhaldandi stöðugleika undir stjórn sitjandi forseta Guðna Th. Jóhannessonar. Það er mjög mikilvægt að á Besstöðum sitji aðili sem gegnir því mikilvæga hlutverki að vera sameiningartákn íslensku þjóðarinnar en setji Alþingi stólinn fyrir dyrnar ef ástæða þykir til og vísa málinu til þjóðarinnar.

Guðmundur Franklín ætlar sér ekki að vera þetta sameiningartákn. Guðmundur ætlar sér að stjórna landinu með harðri hendi, ekki bara setja Alþingi stólinn fyrir dyrnar þegar ástæða þykir til heldur ætlar hann að negla fyrir dyrnar en skilja eftir litla lúgu til þess rétta Alþingi frumvörp til þess að leggja fram eins og Guðmundur hefur margoft lýst yfir að hann ætli að gera.

Þó ég beri ákveðna virðingu fyrir Guðmundi Franklín tel ég að hann sé ekki forsetaefni. Ég er sannfærður um það að Guðni eigi eftir að standa sig með prýði í því hlutverki sem forseti á að sinna eins og ég fór yfir fyrr í greininni, að vera óháður hagsmunaöflum, sameiningartákn þjóðarinnar, hófsamur og verðugur málsvari Íslands á alþjóðavettvangi.

Ég hef persónulega reynslu af því að vinna með Guðna, sú reynsla hefur ætíð verið góð enda er forsetinn okkar afar þægilegur í samskiptum, heiðarlegur og skilningsríkur.

Það er mjög mikilvægt að allir nýti lýðræðislegan rétt sinn til þess að kjósa þjóðhöfðingja, þá sérstaklega ungt fólk þar sem það hefur sýnt sig að ungt fólk er ólíklegra til þess að fara á kjörstað, sem er slæmt.

Íslendingar! Nýtum okkur forréttindi okkar að fá að kjósa! Kjósum stöðugleika, kjósum Guðna.

Höfundur er stuðningsmaður Guðna Th. Jóhannessonar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×