Skoðun

Af hverju ætla ég að kjósa Guðna?

Fríða Stefánsdóttir skrifar

Fyrir fjórum árum tók ég þá ákvörðun að styðja við Guðna og hans framboð. Í kjölfarið fékk ég þá hugmynd að gaman væri að sýna honum vinnustaðinn minn, Sandgerðisskóla og hitta starfsfólk skólans, til að bera út boðskapinn eins og þarft er í kosningabaráttu. Guðni kom helst til snemma og hitti mig í kennslustofunni minni þegar ég var með bekkjarfund með nemendum mínum. Við sátum í hring á gólfinu og vorum að ræða vesen á fótboltavellinum eins og við gerðum reglulega á bekkjarfundum. Guðni tók sig til settist á gólfið með nemendum og tók þátt í líflegum samræðum um jákvæða íþróttamannslega hegðun og svo fór umræðan út í heldur alvarlegri mál eins og líðan, kvíða og áhyggjur.

Guðni lýsti því af einstakri einlægni hvernig hann hefði verið feiminn í skóla og reynt að láta lítið fyrir sér fara og hvernig honum hafi tekist að komast yfir feimnina með tímanum. Krakkarnir hlustuðu af einlægni á forsetaframbjóðandann og náði hann til þeirra allra um leið með einstakri innsýn í líf barna á þessum mótunarárum þeirra.

Ég kýs Guðna einmitt fyrst og fremst vegna þess hversu einlægur hann er og hversu auðséð það er að hann telur sig ekki vera yfir aðra hafinn. Hann er með eindæmum manneskjulegur og niðri á jörðinni. Hann ber ómetanlega virðingu fyrir lýðræði og forsetaembættinu. Hann þekkir sögu þess í þaula og sinnir embættinu með sóma.

Ég kýs líka Guðna vegna þess að hann á alveg dásamlega konu sem er réttsýn, opin og frábær fyrirmynd fyrir aðra. Þau sinna bæði embætti sínu með virðingu og vinsemd.

Guðni leggur áherslu á það góða, hvað hann vill frekar en hvað hann vill ekki. Hann er uppbyggjandi og talar sig ekki upp á kostnað annarra.

Þannig manneskju vil ég sem forseta.

Fríða Stefánsdóttir

Bæjarfulltrúi Suðurnesjabæjar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×