Fyrrverandi fjölmiðlakonan Kimberly Guilfoyle hefur greinst smituð af kórónuveirunni en hún er kærasta Donalds Trump yngri, elsta sonar Bandaríkjaforseta. Guilfoyle hefur starfað innan forsetaframboðs Trump fyrir kosningarnar sem haldnar verða í nóvember.
Bandaríkjaforseti hélt í gær ávarp fyrir framan Rushmorefjall, eitt þekktasta minnismerki Bandaríkjanna, og hafði Guilfoyle ferðast sem hluti af fylgdarliði forseta til Suður-Dakóta. Eftir að hafa greinst með veiruna var tekin sú ákvörðun að hún skyldi ekki mæta á fundinn við Rushmorefjall.
Trump sjálfur fór mikinn í ávarpinu og varaði hann við öfgakenndum vinstri-fasisima. Hann kvartaði þá einnig undan þeim sem vilja rífa niður styttur og minnismerki í landinu.
Fréttastofa ABC greinir frá því að Guilfoyle sýni ekki einkenni veirunnar, sýnataka úr Donald Trump yngri hafi ekki sýnt fram á kórónuveirusmit og New York Times segir að Guilfoyle hefði ekki umgengist forsetann nýverið með þeim hætti að hætta sé á smiti.
Forsetinn hefur verið gagnrýndur vestan hafs fyrir hugarfar sitt gagnvart faraldrinum sem nú geisar. Hefur hann neitað að bera andlitsgrímur, velt fyrir sér samsæriskenningum um tilurð veirunnar og hvatt til þess að sóttvarnarhömlum verði aflétt.
Flest tilfelli, og flest dauðsföll af völdum veirunnar hafa greinst í Bandaríkjunum og virðist ekkert lát ætla að verða á.