Íslandsmót í liðakeppni á vegum Tennissambandsins kláraðist í gær eftir tvær vikur af stöðugri tenniskeppni, á fjórum tennisvöllum Víkings í Fossvoginum.
Tæplega 90 keppendur í 33 liðum tóku þátt í tólf mismunandi keppnisflokkum þar sem yngsti keppandinn var sjö ára í Mini Tennis flokki, og sá elsti 67 ára í 50+ flokki. Samtals voru sex tennisdeildir og félög frá Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík meðal þátttakenda að þessu sinni og yfir hundrað leikir spilaðir.
Tennisklúbbur Víkings náði flestum titlum í ár með samtals sjö, Tennisfélag Kópavogs vann þrjá og Tennisdeild Fjölnis tvo.
Tennisklúbbur Víkings sigraði í meistaraflokki karla og Tennisfélag Kópavogs í meistaraflokki kvenna.

Hér má finna úrslit mótsins og nánari upplýsingar um hverja viðureign.