Skoðun

Veröld sem er

Drífa Snædal skrifar

Félagar í Flugfreyjufélagi Íslands felldu nýgerðan kjarasamning með afgerandi hætti á dögunum. Samningurinn var þess eðlis að komið var til móts við þrönga stöðu Icelandair og dylst fáum þær erfiðu viðræður sem stóðu yfir vikum og mánuðum saman eftir að flugfreyjur og -þjónar höfðu reyndar verið kjarasamningslausar og án launahækkana í tvö ár (ólíkt öðrum flugstéttum). Af hendi Icelandair einkenndist ferlið af vanvirðingu gagnvart flugfreyjum og -þjónum og sjónarmiðum þeirra, stundum var komið með miklu offorsi og reynt að gera starfsfólk ábyrgt fyrir framtíð félagsins og svo heyrðist ekkert vikum saman. 

Undirliggjandi voru óljósar hótanir um „að leita annarra leiða“ sem má túlka sem hótanir um að ráða gerviverktaka eða semja við önnur félög en flugfreyjur og -þjónar hjá Icelandair eiga aðild að. Sem sagt að brjóta á bak aftur reglur íslenska vinnumarkaðarins, samstöðu heillar stéttar og fara í undirboð. Það er ekki síst þessi vanvirðing gagnvart eigin starfsfólki og heilli stétt sem gerir það að verkum að flugfreyjur og -þjónar voru treg til að samþykkja samninginn.

Nú tekur steininn úr þegar aðstoðarframkvæmdastjóri SA ritar grein á Vísi og velur kaldhæðnislega að leita í smiðju mannvinarins Stefan Zweig eftir titli á greininni „Veröld sem var“. Tilgangurinn virðist vera að gera flugfreyjum og -þjónum grein fyrir því að kjaraskerðing sé nauðsynleg öllum til heilla. Enn kveður við yfirlætislegur tónn þar sem „útskýrt“ er hvernig hlutirnir ganga fyrir sig raunverulega. Sem svar við þessu vil ég segja: Stjórnendur Icelandair og SA myndu gera betur með því að setjast að samningaborðinu aftur, sýna viðsemjendum virðingu og meðtaka skilaboð félaga í Flugfreyjufélaginu. Það þarf að gera betur! Ég hef fylgst með viðræðunum síðustu vikur og mánuði og get fullvissað viðsemjendur um að það stendur ekki á starfsfólki að leita lausna. 

Alþýðusamband Íslands stendur þétt við bakið á þeim og mun gera skýlausa kröfu um að stuðningur úr ríkissjóði eða aukið hlutafé úr lífeyrissjóðum sé háð því að farið sé að leikreglum á vinnumarkaði. Það er erfitt að bera saman laun flugstétta hér á landi við önnur lönd enda er launasamsetningin, álög og starfstengdar greiðslur mjög misjafnar eftir flugfélögum og löndum. Hér á landi er dýrt að lifa og laun almennt hærri. Að krefjast umtalsverðrar kjaraskerðingar einnar stéttar í ljósi ástandsins er ógn við allar stéttir hér á landi.

Höfundur er forseti Alþýðusambands Íslands.


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×