Lögregla rannsakar nú skotárás sem átti sér stað í Norsborg, suður af Stokkhólmi, í nótt. Stúlka á þrettánda ári lést eftir að hafa orðið fyrir skoti en samkvæmt upplýsingum sænska blaðsins Expressen voru tveir ungir karlmenn skotmörk árásarmannsins.
Stúlkan var flutt á sjúkrahús eftir árásina þar sem hún lést af sárum sínum í morgun. Tilkynning barst lögreglu á fjórða tímanum í nótt eftir að íbúar í nágrenninu höfðu heyrt skothvelli og lýsti einn því í samtali við Expressen að hann hafði heyrt um tuttugu skothvelli en frekar talið að það væru sprengjuhvellir.
Árásin átti sér stað við Shell-bensínstöð en talið er að árásarmaðurinn hafi ætlað að skjóta tvo unga karlmenn sem tengjast samtökum sem kenna sig við sveitarfélagið Botkyrka. Þeir hafi hins vegar verið við McDonalds-stað nærri bensínstöðinni. Árásarmaðurinn hleypti af þar sem hann sat í hvítum Audi við bensínstöðina og skaut fleiri skotum eftir að hann keyrði af stað.
Nokkrir hafa verið kallaðir í yfirheyrslu vegna málsins en enginn hefur verið handtekinn.