Forval bandarískra Demókrata, forsetakosningar í Bandaríkjunum, útganga Bretlands úr Evrópusambandinu, spenna í samskiptum Bandaríkjanna og Írana, Ólympíuleikar í Tókýó og EM í fótbolta.
Reikna má með að þessi mál verði áberandi í fréttum á árinu sem nú er nýhafið þó að ýmislegt fleira muni að sjálfsögðu einnig bera á góma.
Þetta verður líka mögulega árið þar sem einkafyrirtækin Boeing og SpaceX munu fljúga mönnum út í geim og íbúar á Nýju-Kaledóníu samþykkja að lýsa yfir sjálfstæði.
Vísir hefur tekið saman brot af því markverðasta sem verður á dagskrá á erlendum vettvangi á árinu 2020 sem er nú gengið í garð.
Janúar
Tæknisýningin CES 2020 fer fram í Las Vegas dagana 7. til 10. janúar.
EM í handbolta karla fer fram í Austurríki, Noregi og Svíþjóð dagana 10. til 26. janúar. Íslendingar eru í riðli með Dönum, Ungverjum og Rússum og verða leikir okkar í riðlinum spilaðir í Malmö í Svíþjóð.
Þrátt fyrir ítrekaðar frestanir virðist nú fátt því til fyrirstöðu að Bretland muni loksins ganga úr Evrópusambandinu þann 31. janúar.

Febrúar
Leikurinn um Ofurskálina (Super Bowl LIV) í ameríska fótboltanum fer fram á Hard Rock-vellinum í Flórida 2. febrúar.
Fyrsta forval Demókrata vegna forsetakosninganna fer fram í Iowa þann 3. febrúar. Næsta fer svo fram í New Hampshire 11. febrúar.
Hlaupársdagur! Að loknum 28. febrúar kemur nú dagurinn 29. febrúar líkt og gerist jafnan á fjögurra ára fresti. Dagarnir á árinu eru því 366 á þessu ári.
Forsetakosningar fara fram í Slóvakíu á hlaupársdegi.
Mars
Þingkosningar fara fram í Ísrael þann 2. mars. Þetta verða þriðju þingkosningarnar í landinu á innan við ári.
Apríl
Þingkosningar fara fram í Norður-Makedóníu þann 12. apríl. Þá munu Chilemenn greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá þann 26. apríl. Sama dag eru haldnar þingkosningar í Serbíu.
Fimm hundruð ár verða liðin frá dauða ítalska endurreisnarlistamannsins Rafael þann 6. apríl. Verður þess minnst með fjölda sýninga.

Maí
Eurovision fer fram í Rotterdam í Hollandi, dagana 12., 14. og 16. maí. Alls mun 41 þjóð senda sinn fulltrúa.
Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu fer fram á Atatürk-vellinum í Istanbúl þann 30. maí.
Júní
Evrópumótið í knattspyrnu (EM) hefst þann 12. júní og stendur til 12. júlí. Mótið er haldið í tólf borgum í tólf löndum. Opnunarleikurinn fer fram í Róm (Ítalía á móti Tyrklandi), en úrslitaleikurinn á Wembley í London. Í ljós kemur á vordögum hvort að Ísland fái þátttökurétt á mótinu.
Á sama tímabili, 12. júní til 12. júlí, fer fram Copa América, Suður-Ameríkukeppnin í fótbolta, í Argentínu og Kólumbíu.
Júlí
Flokksþing bandarískra Demókrata fer fram dagana 13. til 16. júlí í Milwaukee í Wisconsin. Þar munu þeir formlega velja sinn frambjóðenda sem væntanlega verður andstæðingur Donald Trump Bandaríkjaforseta í kosningunum 3. nóvember.
Bandaríska geimvísindastofnunin NASA skýtur geimfari á loft þann 17. júlí sem mun stefna á Mars til að kanna möguleika og forsendur fyrir mönnuðum geimferðum síðar meir.

Ólympíuleikarnir í Tókýó í Japan verða settir þann 24. júlí. Leikarnir standa til 9. ágúst.
Ágúst
Flokksþing bandarískra Repúblikana fer fram í Charlotte í Norður-Karólínu dagana 24. til 27. ágúst. Þar munu þeir formlega velja sinn forsetaframbjóðanda fyrir kosningarnar í nóvember.
Paralympics, Ólympíumót fatlaðra, fer fram í Tókýó dagana 25. ágúst til 6. september.
September
Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort að Nýja-Kaledónía eigi að lýsa yfir sjálfstæði fer fram 6. september. Nýja-Kaledónía er franskt landsvæði, austur af Ástralíu og eru íbúar eyjanna tæplega 300 þúsund talsins. Samkvæmt samkomulagi frá 1998 mega Nýju-Kaledóníumenn framkvæma þrjár slíkar atkvæðagreiðslur og er þetta önnur í röðinni. Íbúar höfnuðu sjálfstæði í atkvæðagreiðslunni árið 2018.
Golfmótið Ryder Cup verður haldið á Whistling Straits í Wisconsin dagana 25. til 27 september.
Október
Heimssýningin Expo 2020 verður opnuð í Dúbaí 20. október.

Nóvember
Forsetakosningar fara fram í Bandaríkjunum þriðjudaginn 3. nóvember. Donald Trump mun þar reyna að tryggja sér sitt annað kjörtímabil.
Þingkosningar fara fram á Nýja-Sjálandi á árinu. Kosningarnar þurfa að fara fram í síðasta lagi 21. nóvember næstkomandi, en enn á eftir að boða til sjálfra kosninganna þegar þetta er skrifað. Samhliða kosningunum fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla í landinu um hvort að lögleiða eigi kannabis.
Fulltrúar ríkja heims koma saman í Glasgow í Skotlandi í nóvember til að meta framgang mála þegar kemur að árangri við minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda og þá í tengslum við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins.
Desember
Haldið verður upp á 250 ára fæðingarafmæli þýska tónskáldsins Ludwig van Beethoven.
Aðfangadagur jóla verður á fimmtudegi þetta árið.