Skoðun

Valdið er á endanum alltaf hjá fé­lags­mönnunum sjálfum

Drífa Snædal skrifar

Íslenski vinnumarkaðurinn byggir á lýðræðislegum stoðum í meira mæli en í flestum öðrum löndum. Það er í höndum félagsmanna að greiða atkvæði um hvort eigi að fara í verkfall og það er í höndum félagsmanna að greiða atkvæði um samningana þegar þeir liggja fyrir. Þetta kerfi getur verið þungt í vöfum og erfitt en það virkar vel og ég tel kostina fleiri en gallana. Stéttarfélögin þurfa að kynna vel áherslur sínar áður en til atkvæðagreiðslu kemur um boðun verkfalls og sama má segja þegar kynna þarf nýjan samning. Þetta þarf að gerast á þeim tungumálum sem fólk í félaginu skilur og þannig leggur þetta ríkar skyldur á herðar stéttarfélaganna að miðla upplýsingum og fá skýr skilaboð frá sínu baklandi. Ef farið er í átök á vinnumarkaði er það líka alveg ljóst að félagsmenn eru tilbúnir í þau átök, enda hafa þeir kosið það. Viðsemjendur geta því ekki efast um umboð og slagkraft krafna við samningaborðið.

Um þessar mundir fer fram fjöldi atkvæðagreiðslna um kjarasamninga á opinbera vinnumarkaðnum og ein atkvæðagreiðsla um verkföll Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg. Eins og í svo mörgu öðru eigum við einhvers konar met í fjölda kjarasamninga miðað við höfðatölu og eru tæplega 200 samningar gerðir á landinu. Um alla þessa samninga eru greidd atkvæði enda falla þeir úr gildi ef meira en helmingur þeirra sem greiða atkvæði eru á móti samningnum. Samninganefndir undirrita því ekki samninga nema vera nokkuð vissar um að þeir standi og það krefst samtals við og þekkingu á vilja félagsmanna.

Ég brýni félaga í aðildarfélögum ASÍ til að fylgjast vel með kjaraviðræðum og taka þátt í atkvæðagreiðslu, hvort sem er um verkföll eða kjarasamninga. Valdið er í ykkar höndum!

Góða helgi, Drífa

Höfundur er forseti ASÍ.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×