Körfuknattleikssamband Íslands hefur sektað ÍA um 50.000 krónur vegna háttsemi stuðningsmanns liðsins í leik gegn Njarðvík í bikarkeppni 10. flokks karla. Leikurinn fór fram á Akranesi 15. janúar síðastliðinn.
Stuðningsmaður ÍA byrjaði á því að trufla leikmann Njarðvíkur þegar hann var á vítalínunni undir lok leiks. Strákurinn brenndi af vítinu en ákveðið var að endurtaka það.
Eftir leikinn hljóp áhorfandinn að varamannabekk Njarðvíkur og hrinti leikmanni liðsins sem stóð uppi á stól. Var sá heppinn að meiðast ekki.
Stuðningsmaðurinn var ekki hættur og hélt áfram að ýta við leikmönnum og þjálfara Njarðvíkur þar til formaður ÍA dró hann í burtu.
Í athugasemd frá ÍA sem barst aga- og úrskurðarnefnd KKÍ kemur fram að félagið harmi atvikið og stuðningsmaðurinn hafi strax um kvöldið haft samband við formann KKÍ og beðist afsökunar á framferði sínu.
Aga- og úrskurðarnefnd taldi háttsemi stuðningsmannsins mjög alvarlega og sektaði ÍA um 50.000 krónur og auk þess að áminna félagið.
Úrskurðinn má lesa með því að smella hér.
ÍA sektað vegna stuðningsmanns sem réðist á leikmenn Njarðvíkur
