Skoðun

Kjör, völd og (van)virðing

Drífa Snædal skrifar

Það er gömul saga og ný að erfiðast er að sækja kjarabætur fyrir þá sem eru lægst launaðir. Það er líka viðtekin venja að þegar búið er að sækja kjarabætur fyrir lægsta hópinn fær sá hæsti kjarabæturnar líka frekar áreynslulaust. Við sjáum þetta í kjarasamningi sem nokkur BHM félög gerðu, þar sem krónutöluhækkanir fyrir lægsta hópinn eru allt í einu orðnar að prósentutölum fyrir þann hæsta. Krafan um að fólk sem á oft ekki fyrir mat haldi sig „innan rammans“ er hins vegar ófrávíkjanleg. Enn önnur birtingamyndin eru skattalækkanirnar sem samið var um í tengslum við lífskjarasamninginn. Við náðum fram þriðja þrepinu í skattkerfinu til að lækka skatta á þá lægst launuðu. Við lögðum líka til hátekjuskattþrep sem varð því miður ekki raunin. Niðurstaðan er sú að fólk með yfir milljón á mánuði er að fá skattalækkun, og þar með rýrna tekjur ríkisins og möguleikar þess til að efla heilbrigðiskerfið og hækka örorkubætur svo tvö brýn verkefni séu nefnd. Krafan um að skattkerfinu sé beitt til að auka jöfnuð stendur enn!

Við munum öll eftir úrskurðum kjararáðs og þeirri ótrúlegu gjafmildi sem stunduð var innan þess til handa fólki í valdastöðum. Því nær toppnum sem þú ert, því líklegra er að þú fáir kjarabætur í ýmsum myndum. Því fjarlægari valdinu sem þú ert, því líklegra er að þú þurfir að sækja kjarabætur með hörku. Að meina fólki að borða matinn sem það eldar fyrir aðra í mötuneytum gæti virst skynsamleg ákvörðun við stjórnarborðið yfir Excel skjalinu, en vanvirðingin sem felst í slíkri ákvörðun gagnvart þeim sem sinna störfunum og eru fjarlægir valdinu er ekki til að auðvelda neina samninga eða samskipti.

Samningarnir sem gerðir voru fyrir ári síðan fólu í sér þá sýn að leiðrétta laun þeirra sem lægstir eru, jafna kjörin og auka almenn lífsgæði. Verum trú þeirri sýn og þeirri vegferð!

Drífa

Höfundur er forseti ASÍ.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×