400 nemendur í Réttarholtsskóla geta ekki sótt skóla á morgun og föstudag vegna verkfalls starfsmanna Reykjavíkurborgar sem eru í Eflingu. Margrét Sigfúsdóttir skólastjóri segir að ákvörðunin hafi verið tekin í samráði við Helga Grímsson, sviðsstjóra Skóla- og frístundaráðs. Réttarholtsskóli er eini grunnskólinn í Reykjavík þar sem allir starfsmenn sem sjái um þrif eru í Eflingu.
Í skeyti til foreldra sem birt var sömuleiðis á vefsíðu skólans kemur fram að staðan sé því miður orðin þannig að leggja þurfi niður kennslu þessa tvo daga.

„Við munum láta ykkur vita ef eitthvað breytist fyrir föstudaginn. Annars sendum við ykkur upplýsingar fyrir helgi um fyrirkomulag kennslu í næstu viku. Ef deilan leysist ekki ætlum við að koma til móts við nemendur og nám þeirra eins og við getum miðað við aðstæður,“ segir í skilaboðum skólastjórnenda í Réttó.
Margrét segist í samtali við Vísi telja nemendur og foreldra sýna stöðunni fullan skilning. Svona verði þetta út vikuna og í framhaldinu verði staðan tekin.