Rapparinn Eminem stal heldur betur senunni á Óskarnum í Los Angeles í nótt þegar hann birtist allt í einu á sviðinu og flutti lagið vinsæla Lose Yourself.
Fyrir 18 árum vann hann einmitt Óskarinn fyrir lagið sem var aðallag kvikmyndarinnar 8 Mile sem kom út árið 2002.
Marshall Mathers, betur þekktur sem Eminem, komst ekki á Óskarsverðlaunahátíðina á sínum tíma og gat ekki tekið við styttunni en mætti loksins á Óskarinn í nótt eins og hann talar sjálfur um á Twitter.
Look, if you had another shot, another opportunity... Thanks for having me @TheAcademy. Sorry it took me 18 years to get here. pic.twitter.com/CmSw2hmcZo
— Marshall Mathers (@Eminem) February 10, 2020
Rétt áður en Eminem steig á sviðið var talað um það að sum lög geti hreinlega gert kvikmyndir að því sem þær eru í raun og veru.
Lagið Lose Yourself er gott dæmi um það og má segja það sama um fjölmargar kvikmyndir í sögunni eins og farið var yfir á Óskarnum í nótt.
Stjörnurnar í salnum fengu vægt sjokk þegar þau sáu rapparann stíga á sviðið og vakti það mikla athygli hversu vel gestirnir Óskarsins kunnu lagið. Þegar Eminem kláraði lagið stóðu allir gestir Óskarsins upp og klöppuðu fyrir rapparanum.