Knattspyrnukappinn fyrrverandi Björgólfur Takefusa og söngkonan Gréta Karen Grétarsdóttir hafa fundið sumarástina í örmum hvor annars.
Björgólfur sem er fertugur og Gréta Karen sem er þremur árum yngri hafa verið að hittast í nokkrar vikur. Söngkonan, sem er virk á Instagram þar sem hún er með á fimmta þúsund fylgjendur, deildi í nótt myndbandi af parinu uppi í rúmi þar sem undir hljómar ástarlagið Can't Take My Eyes off You.
Björgólfur var á sínum tíma markamaskína í íslenskum fótbolta og raðaði inn mörkunum meðal annars með Þrótti, Fylki og KR. Hann spilaði þrjá landsleiki á sínum tíma. Hann hefur í sumar spilað með FC Ísland í sjónvarpsþáttum hjá Stöð 2.
Gréta Karen hefur verið búsett í Los Angeles í Bandaríkjunum undanfarin ár þar sem hún hefur sinnt tónlistinni. Segja má að hún sé með tónlistina í blóðinu en faðir hennar er Grétar Örvarsson í Stjórninni og bróðir hennar gítarleikarinn Kristján Grétarsson.
Gréta Karen og söngkonan Svala Björgvins eru góðar vinkonur. Greint var frá því í gær að Svala væri komin í samband með Kristjáni Einari Sigurbjörnssyni. Þær vinkonur eru því samstíga í því að finna sumarástina og mátti sjá öll fjögur saman í góðum gír á Instagram hjá Grétu Karen um helgina.