Valdís Steinarsdóttir vöruhönnuður hlýtur sænsku hönnunarverðlaunin Formex Nova í ár. Þetta var tilkynnt í dag en Valdís tekur rafrænt formlega við verðlaununum í kvöld. Verðlaunin hlýtur hún fyrir verkefni sín Bioplastic Skin og Just Bones.
„Það er erfitt að koma því í orð hvað þetta er mikill heiður og hvatning. Ómetanlegt að fá svona viðurkenningu,“ segir Valdís í samtali við Vísi.
„Það verður athöfn í kvöld í Svíþjóð sem ég mun vera viðstödd í gegnum netið. Verður spennandi að sjá hvernig hún fer fram.“
Valdís var með tvær sýningar á HönnunarMars í sumar. Hún sýndi Just Bones á sýningunni ASRM U ready? í Hafnarhúsinu á HönnunarMars, sem vakti verðskuldaða athygli. Auk þess hannaði hún verkið Torg í speglun ásamt Arnari Inga Viðarssyni en verkið er staðsett á Lækjartorgi og hefur verið áberandi á Instagram myndum Íslendinga í sumar.

„Covid hefur sett stórt strik í reikninginn með flest öll mín plön sem ég hafði. En ég mun gera það besta úr stöðunni og finna lausnir til að láta þær tafir og breytingar vinna með mér,“ svarar hönnuðurinn aðspurð um það sem fram undan er.
Formex Nova verðlaunin voru fyrst afhent fyrir fimm árum síðan í tengslum við Formex hönnunarsýninguna í Stokkhólmi og hefur það að markmiði að kynna og efla norræna hönnun. Í tilkynningu frá Miðstöð hönnunar- og arkitektúr kemur fram að dómnefndin hrósar Valdísi sérstaklega fyrir metnað til að hanna einstakar lausnir á samfélags- og umhverfislegum vandamálum í opnu samtali við áhorfendur. Í umsögn dómnefndar Formex Nova segir
„Hönnun sem einblínir á tilraunakennd efni og að finna einstakar lausnir að samfélagslegum og umhverfislegum vandamálum. Gegnum verkefni sín leitar Valdís að opnu samtali við áhorfendur um samfélagslegar breytingar í gegnum hönnun.“

Hægt er að kynna sér verk Valdísar betur á vefsíðu vöruhönnuðarins.