Enn hefur ekki tekist að rekja uppruna kórónuveirusmitsins sem kom upp á Hlíf, íbúðum fyrir eldri borgara á Ísafirði.
Þetta kom fram í máli Gylfa Ólafssonar, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, sem ræddi við Telmu Tómasson í beinni útsendingu í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Sá sem greindist er á níræðisaldri og sagði Gylfi aðspurður um líðan viðkomandi ekki geta sagt meira en að ekki hafi þurft að leggja hann inn á sjúkrahús. Nítján íbúar Hlífar, svoru skikkaðir í sóttkví í gær vegna smitsins. Töluvert púður hefur farið í það að finna uppruna smitsins, án árangurs.
„Nei, því miður hefur ekki náðst að rekja upprunann og grunur rakningarteymisins hérna fyrir vestan beindist að einni smitleið en við náðum að útiloka hana með sýnunum sem tekin voru í gær,“ sagði Gylfi. Ekkert annað smit hefur greinst út frá smitinu á Hlíf.
„Okkur líður illa með það að hafa ekki náð að smíða úr þessu heillegan söguþráð. Hringurinn verður stækkaður, og hefur verið stækkaður dálítið mikið í dag. Fólk fer í sýnatöku á morgun og við fáum vonandi úr því annað kvöld og þá getum við tekið ákvörðun um næstu skref,“ sagði Gylfi aðspurður um hver væru næstu skref.
Gripið hefur verið til ýmissa sóttvarna vegna smitsins en aðstandendur mega til að mynda ekki koma í heimsókn á Hlíf. Líðan íbúa á Hlíf væri efti atvikum.
„Það er nú kannski dálítið sjokk að heyra að einhver sem býr í sama stigagangi með sé með smitið og fólki líður ekki vel að frelsið sé takmarkað og fólk þurfi að vera inni á herberginu sínu eða íbúðinni sinni.“