Starfsmaður Borgarsels, dagþjálfunar fyrir heilabilaða sem rekin er af hjúkrunarheimilinu Eir og staðsett er í Spönginni, greindist með kórónuveiruna síðastliðinn fimmtudag, þann 20. ágúst. Starfsmaðurinn hafði mætt einkennalaus til vinnu þriðjudaginn 18. ágúst en fór hann að öllum sóttvarnareglum sem settar hafa verið á staðnum segir í tilkynningu frá Eir.
Þrír skjólstæðingar sem taldir eru meira útsettir fyrir veirunni og fjórir starfsmenn sem höfðu verið í nálægð við starfsmanninn voru sendir heim í fjórtán daga sóttkví. Búið er að skima alla þá sem sendir voru í sóttkví og reyndust þeir allir neikvæðir. Verða þeir aftur skimaðir í lok sóttkvíar, þann 1. september næstkomandi.
Borgarsel hefur verið sótthreinsað og unnið er að skipulagningu í samvinnu við sóttvarnalækni og almannavarnir. Aðstaðan hefur verið opnuð á ný. Fyrir þá skjólstæðinga sem sjúkdóms síns vegna eiga erfitt með að vera einir heima allan daginn. Allir skjólstæðingar Borgarsels, utan þeirra sem eru í sóttkví, verða skimaðir 25. og 26. ágúst.
Þar til sóttkvínni lýkur verður starfsemi Borgarsels með breyttu sniði, allir verða hitamældir við komu og snertifletir sótthreinsaðir oftar en venjulega.
Síðasti dagur sóttkvíar á Hömrum
Þá er dagurinn í dag síðasti dagur sóttkvíar á Hömrum, hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ sem rekið er af Eir. Þeir íbúar sem voru í sóttkví verða skimaðir í dag og voru þeir allir, og starfsfólk sem einnig var útsettast fyrir veirunni, skimaðir tvisvar og reyndust allir neikvæðir.
Sóttkvínni verður því aflétt í kvöld ef sýnatökur reynast neikvæðar og opnar heimilið því að öllum líkindum á morgun fyrir heimsóknir aðstandenda. Heimsóknarreglur heimilins fara aftur í fyrra horf þ.e. einn aðstandandi má koma í heimsókn daglega, klukkutíma í senn. Viðkomandi skráir komu sína, sprittar hendur og fer beinustu leið til ástvinar síns og síðan beinustu leið út.