Tveir nemendur í 7. bekk í Vallaskóla á Selfossi hafa greinst með kórónuveiruna á síðustu tveimur dögum. Nemendurnir smituðust eftir að bekkjarfélagi þeirra, sem greindist með veiruna í byrjun mánaðar, mætti með einkenni í skólann í lok ágúst.
Þetta staðfestir Guðbjartur Ólason skólastjóri Vallaskóla í samtali við Vísi. Alls eru því þrír nemendur skólans nú með staðfest smit. Báðir nemendurnir sem greindust til viðbótar voru í sóttkví en allur bekkurinn var skimaður fyrir veirunni.
Umsjónarkennari og stuðningsfulltrúi fóru einnig í sóttkví vegna fyrsta smitsins. Ekki hefur þurft að senda fleiri í sóttkví vegna nýju smitanna.
Nemandinn sem smitaðist fyrstur mætti ekki í skólann á mánudag og þriðjudag í síðustu viku en kom í fyrsta tíma á miðvikudag. Hann var fljótlega sendur heim vegna flensueinkenna. Þar áður hafði nemandinn síðast verið í skólanum föstudaginn 28. ágúst en ekki fengið einkenni fyrr en þá um helgina.