Alþjóðaheilbrigðisstofnunin greindi frá því í dag að aldrei hefðu fleiri tilfelli verið staðfest á einum sólarhring. Alls greindust 307.930 samkvæmt tölum stofnunarinnar og voru flest tilfellin í Bandaríkjunum, Brasilíu og Indlandi.
Rúmlega 94 þúsund tilfelli voru staðfest í Indlandi síðasta sólarhringinn og 45 þúsund í Bandaríkjunum. Brasilía kom þar á eftir með tæplega 44 þúsund nýgreind smit að því er fram kemur á vef Reuters.
Hvergi hafa fleiri greinst með kórónuveiruna en í Bandaríkjunum, eða um 6,5 milljónir. Indland kemur þar á eftir með rúmlega 4,7 milljónir tilfella, en ástandið versnar dag frá degi vegna mikillar fjölgunar smita. Súrefni til lækninga er af skornum skammti en fleiri en eitt þúsund létust af völdum veirunnar þar í landi síðastliðinn sólarhring.
Bandaríkin tilkynnti einnig um rúmlega þúsund dauðsföll af völdum kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 en 874 létust í Brasilíu. Staðfest dauðsföll á heimsvísu af völdum kórónuveirunnar eru nú 917 þúsund.