Gretchen Whitmer, ríkisstjóri Michigan, og fjölskylda hennar voru flutt á milli felustaða af lögregluþjónum á meðan fylgst var með mönnum sem lögðu á ráðin með að ræna henni. Hún var meðvituð um ráðabruggið og þurfti nokkrum sinnum að flytja fjölskylduna vegna mannanna. Þetta kom fram í máli Dana Nessel, ríkissaksóknara Michigan, í viðtali í dag.
Whitmer sjálf segir að ekki eigi að kalla menn sem þessa vopnaðar sveitir, eins og iðulega er gert vestanhafs. Það eigi að kalla þá heimaræktaða hryðjuverkamenn.
Bandaríska alríkislögreglan (FBI) tilkynnti í gær að hún hefði stöðvað téðar fyrirætlanir hópsins. Sex hafa verið ákærðir fyrir að hafa ætlað að ræna Whitmer í sumarhúsi hennar og sjö hafa verið ákærðir fyrir að skipuleggja valdarán í Michigan.
Hópurinn virðist tengjast vopnuðum öfgasveitum hægri manna, sem hafi haft uppi hörð mótmæli vegna kórónuveiruaðgerða í ríkinu.
Í frétt AP er haft eftir Nessel að ákveðið hafi verið að binda enda á eftirlitið og handtaka mennina þegar þeir ætluðu að fara að kaupa sprengiefni og skiptast búnaði.
„Við töldum rétt að grípa inn í áður en einhver léti lífið,“ sagði Nessel.
Whitmer gagnrýndi Donald Trump, forseta, í gær og sakaði hann um að ala á sundrung og ofbeldi.
Í kjölfar þess gagnrýndi Trump Whitmern á Twitter og sakaði hana meðal annars um vanþakklæti. Hann sagðist fordæma allt ofbeldi Bandaríkjamanna.
Whitmer hélt áfram að kenna Trump um ástandið í dag og í viðtali við ABC sagði hún orðræðu hans vera hættulega. Ekki bara fyrir hana heldur aðra embættismenn víðsvegar um Bandaríkin.
„Frá því hann kallaði mig „þessa konu í Michigan“, sáum við aukningu í hatorsorðræðu gagnvart mér,“ sagði Whitmer í viðtalinu. Hún sagði að í hvert sinn sem forsetinn hefði tíst um þörf þess að „frelsa Michigan“ og kallað eftir því að hún semdi við þessa sömu menn og voru handteknir, því þeir væru gott fólk, væri hann að ýta undir hryðjuverk. Hún væri ekki eini ríkisstjórinn sem væri að eiga við þetta vandamál.
Hún sagði einnig að góð manneskja myndi taka upp símann og spyrja hvernig hún hefði það.
„Það gerði Joe Biden. Ég held að það segi okkur allt sem þarf um persónuleika þeirra tveggja sem eru að berjast um að leiða þetta ríki næstu fjögur árin.“