Nokkrir þeirra hægriöfgamanna sem voru handteknir vegna ráðabruggs um að ræna ríkisstjóra Michigan í Bandaríkjunum í síðustu viku ræddu um að skjóta hann í höfuðið og ræna ríkisstjóra Virginíu. Mennirnir voru ósáttir við sóttvarnaaðgerðir ríkisstjóranna sem eru báðir demókratar.
Alríkislögreglumaður bar vitni í dag um að fimm af þrettán mönnum sem voru handteknir fyrir að leggja á ráðin um að ræna Gretchen Whitmer, ríkisstjóra Michigan, í síðustu viku hafi rætt um að myrða hana. Þeir hafi einnig talað um að ræna Ralph Northam, ríkisstjóra Virginíu.
„Á þessum fundi ræddu þeir um möguleg skotmörk, að taka sitjandi ríkisstjóra, sérstaklega álitaefni varðandi ríkisstjóra Michigan og Virginíu á grundvelli sóttvarnaskipana,“ sagði Richard Trask, alríkislögreglumaður, og vitnaði í heimildarmenn og dulkóðuð samskipti sakborninganna. Hann bar vitni þegar tekin var fyrir krafa fimm sakborninga um lausn gegn tryggingu fyrir svæðisdómstól í dag.
Einn mannanna stakk upp á í skilaboðum að skjóta Whitmer, mögulega dulbúinn sem flatbökusendill. Mennirnir vildu „rétta“ yfir Whitmer sem þeir töldu seka um landráð. Vildu þeir grípa til aðgerða fyrir kosningarnar í næsta mánuði.
Að minnsta kosti sjö sakborningar af þrettán tengjast vopnaðri sveit hægrimanna í Michigan. Þeir eru ákærðir fyrir brot í ríkinu. Sex sakborninganna sæta aftur á móti alríkisákæru fyrir að leggja á ráðin um mannrán. Þeir gætu átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Donald Trump forseti og ýmsir hægriöfgahópar hafa deilt hart á Whitmer vegna aðgerða hennar gegn kórónveirufaraldrinum. Hvatti forsetinn íbúa bæði Michigan og Virginíu til þess að „frelsa“ ríkin í apríl.