Skoðun

Svörum kallinu

Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar

Á dögunum fór fram umræða á Alþingi um biðlista eftir úrræðum fyrir börn með geðheilbrigðisvandamál. Í umræðunni kom ég sérstaklega inn á þann þátt sem snýr að því til hvaða aðgerða ráðherra hyggðist grípa til og í framhaldinu lagði ég til að ráðist væri í úttekt á geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Ekki aðeins úttekt vegna geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga líkt og gert var árið 2016 heldur að fela ríkisendurskoðanda að framkvæma heildarúttekt á geðheilbrigðisþjónustunni í landinu þar sem slík úttekt hefur enn ekki farið fram.

Ég, ásamt öðrum þingmönnum Miðflokksins og Sjálfstæðisflokks hef þess vegna, með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, óskað eftir því að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Við óskum eftir því að í skýrslunni komi fram stefna, skipulag, kostnaður og árangur í geðheilbrigðismálum.

Undanfarið hefur verið fjallað um geðheilbrigði í fjölmiðlum. Geðhjálp hefur verið með herferð undir yfirskriftinni „39“ er táknar fjölda sjálfsvíga á síðasta ári og að meðaltali síðustu 10 ár. Með herferðinni voru einnig lagðar fram níu aðgerðir til að setja geðheilsu í forgang. Fyrsta aðgerðin sem Geðhjálp benti á var einmitt sú að gerð verði heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu. Við þessu ákalli erum við að bregðast með því að óska eftir úttekt ríkisendurskoðanda en úttektin er nauðsynleg svo hægt sé að ná utan um málaflokkinn og auka samhæfingu þeirra þriggja stoða sem eru á hendi ríkisins (sjúkrahús, heilsugæsla og sérfræðiþjónusta). Ætlunin er líka að úttektin taki til búsetu- og félagsþjónustu sveitarfélaga þannig að styrking hennar og samhæfing við þjónustu ríkisins verði auðsóttari. Með því að fá úttekt á geðheilbrigðisþjónustu í landinu verður til yfirsýn sem þarf að vera fyrir hendi til þess að geta séð hvar vel er staðið að málum og hvar þarf að gera betur.

Höfundur er þingmaður Miðflokksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×