Þetta er á meðal þess sem liggur að baki mati sóttvarnalæknis og ákvörðun heilbrigðisráðherra um að hafa líkamsræktarstöðvar lokaðar áfram en heimila opnun sundlauga.
Sundlaugar voru opnaðar í morgun fyrir helming leyfilegs gestafjölda hverju sinni þegar ný reglugerð heilbrigðisráðherra tók gildi. Eigendur líkamsræktarstöðva hafa margir gagnrýnt stefnu stjórnvalda, þ.e. að sundlaugarnar séu opnaðar en líkamsræktarstöðvar ekki, og einhverjir sagst íhuga málsókn vegna þessa.
Greinargerð sóttvarnalæknis um þetta var birt á vef heilbrigðisráðuneytisins í dag. Í tilkynningu um greinargerðina segir að kórónuveirusmit tengd líkamsrækt og líkamsræktarstöðvum séu margalt fleiri en smit sem rekja má til sundlauga. Niðurstöður úr rakningargrunni sóttvarnalæknis sýni þetta.
Bein smit sem tengjast líkamsrækt eru 36 og fjöldi afleiddra smita vegna þeirra eru 74, líkt og greint var frá í fjölmiðlum í gær. Bein smit frá sundlaugum eru fimm og heildarfjöldi afleiddra smita vegna þeirra eru tuttugu. Um sjö sinnum fleiri hafi því smitast í tengslum við líkamsrækt en í sundi.
Þá bendir sóttvarnalæknir á að um 35 ríki Evrópusambandsins flokki líkamsrækt sem hááættustaði og gripu til lokana líkamsræktarstöðva snemma í faraldrinum. Samtök bandarískra smitsjúkdómalækna telji smithættu vegna sunds í almenningslaug í meðallagi en að líkamsræktarstöðvar feli í sér hááhættu.
Engar vísbendingar séu heldur um að Covid-19 geti smitast með vatni og þá drepi klórblandað sundlaugarvatn veiruna.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að þó að margir sjái óréttlæti í þeim sóttvarnaaðgerðum sem tóku gildi í dag sé mikilvægt að landsmenn allir standi saman. Ef það verði ekki gert gæti komið bakslag í faraldurinn.