Í Pittsburgh í Pennsylvaníu hefur lögreglan fengið tíu tilkynningar um kosningasvindl. Búið er að ljúka átta málum þar af án ákæru og án þess að þessar tilkynningar hafi verið á rökum reistar. Enginn hefur verið ákærður í Pittsburgh né í Fíladelfíu, tveimur stærstu borgum ríkisins.
Alls hafa þrír verið ákærðir fyrir kosningasvik í Pennsylvaníu og allir eru þeir Repúblikanar. Í einu tilfelli reyndi 71 árs gamall maður að greiða atkvæði tvisvar sinnum. Hann kaus á kjördag og mætti svo aftur, með sólgleraugu, og reyndi að kjósa í nafni sonar síns.
Í Wisconsin hefur ein kona verið ákærð fyrir kosningasvindl. Hún reyndi að senda inn kjörseðil í nafni eiginmanns síns, sem dó í júlí. Svipaða sögu er að segja frá Michigan, þar sem tveir menn hafa verið ákærðir og báðir fyrir að falsa undirskriftir dætra sinna til að fá eða reyna að senda inn kjörseðla í þeirra nafni.
Ræddu við embættismenn í sveifluríkjum
Þetta er meðal þess sem kemur fram í samantekt Washington Post þar sem blaðamenn hafa rætt við embættismenn í sveifluríkjunum svokölluðu. Embættismenn segja nokkur þeirra fáu tilvika sem hafa komið upp snúast um að stuðningsmenn Trumps hafi ætlað sér að hjálpa honum.
Þar á meðal var einn maður í Pennsylvaníu sem reyndi að senda inn kjörseðil í nafni látinnar móður sinnar.
Coleman McDonough, yfirmaður lögreglunnar í Pittsburgh, segir að af þeim tíu tilkynningum sem þeim hafi borist, sé búið að loka átta, eins og hefur komið fram áður. Ein er enn til rannsóknar og ein hefur verið send til annars embættis.
Allar þessar átta áðurnefndu tilkynningar snerust um það sem McDonough segir vera „alvarlega ásakanir“ um grunsemdir gagnvart starfsmönnum kjörstjórna sem unnu að talningu atkvæða. Þær snerust þó um misskilning þeirra sem tilkynntu á talningarferlinu, kosningalögum eða byggðu á Facebookfærslum sem reyndust rangar.
Margar tilkynningar byggja á misskilningi og vanþekkingu
Svipaðar sögur er að segja frá öðrum ríkjum, miðað við samantekt WP. Það hafa tiltölulega fáar tilkynningar borist lögreglu um kosningasvindl og flestar þeirra byggja á misskilningi eða fölskum upplýsingum.
Embættismenn segjast hafa þurft að eiga við mun fleiri kvartanir en venjulega og það sé að mestu leyti vegna áróðurs Trump-liða. Fólk hafi verið hvatt til að tilkynna svindl og það hafi kvartað yfir hefðbundnum ferlum sem það einfaldlega skyldi ekki.
Í Arizona hringdu um tvö þúsund manns inn kvartanir um kosningasvindl í kjölfar kosninganna. Lang flestar þeirra kvartana hafa ekki reynst á rökum reistar. Meirihluti þeirra sneri að sögusögnum um að atkvæðaseðlar sem skrifað væri á með túss væru ógildir. Það er ekki rétt.