Sænska handknattleikssambandið tilkynnti nú í kvöld að leiktíðinni væri lokið í sænskum handbolta, vegna kórónuveirunnar og aðgerða til að hefta útbreiðslu hennar.
Það stefndi í afar spennandi lokaumferð í úrvalsdeild karla þar sem Alingsås hafði eins stigs forskot á Malmö og tveggja stiga forskot á Kristianstad og Skövde. Lokaumferðin verður hins vegar ekki leikin og nú er ljóst að það verður heldur engin úrslitakeppni.
Í yfirlýsingu sænska sambandsins segir að núverandi staða í deildum verði lokastaða. Sambandið ætli svo að gefa sér tíma fram á föstudag til að tilkynna hverjar afleiðingarnar verði af þessu. Því er til dæmis ekki ljóst hvort meistarar verða krýndir, og hvernig málum verður háttað varðandi fall úr deild og hvort og þá hvaða lið komast upp um deildir.