Hinn þrjátíu og þriggja ára gamli Ryan McCormick er ekki þekktasti golfari í heimi. Á síðasta ári lék hann á PGA-mótaröðinni sem er sú sterkasta í heimi en á þessu ári hefur hann mátt sætta sig við að spila á Korn Ferry-mótaröðinni og hefur ekki gengið sérlega vel.
Þetta virðist fara í skapið á McCormick og í raun svo mikið að hann er orðinn þreyttur á sjálfum sér og hefur ákveðið að grípa til örþrifaráða.
Á Savannah mótinu sást McCormick úti á vellinum þar sem hann var búinn að setja límband fyrir munninn á sjálfum sér.
Golf is hard.
— Korn Ferry Tour (@KornFerryTour) April 4, 2025
Ryan McCormick resorted to taping his mouth during R2 of @clubcarchamp. pic.twitter.com/rBjreDoNfN
„Þetta hefur ekki verið sérlega skemmtilegt og stundum hef ég orðið verulega reiður, þannig að ég límdi fyrir munninn. Ég hugsaði með mér að það myndi fá mig til að halda kjafti,“ sagði McCormick í viðtali á X-síðu Korn Ferry-mótaraðarinnar.
Hann segist hafa prófað ýmislegt til að hafa stjórn á eigin reiði.
„Ég er búinn að prófa allt. Ég hef lesið fullt af bókum og talað við fólk en ég verð bara of reiður á vellinum. Að lokum var ég ráðþrota og datt þetta í hug fyrir nokkrum vikum síðan.“
Hann líkti sjálfum sér við þekkta persónu úr kvikmyndunum um Batman.
„Ég anda allavega og mér líður pínu eins og Bane í Batman. Ég er ekki stoltur en ég vil ekki hafa slæm áhrif á þá sem ég spila með. Það er ekki sanngjarnt gagnvart þeim eða mér.“