Skoðun

Krafa um sanngjarnari vinnumarkað og réttlátari heim

Drífa Snædal skrifar

Vikan hefur einkum verið nýtt í að bregðast við tillögum stjórnvalda og hafa áhrif á hvernig frumvörpin fara í gegnum þingið og að vinna stefnumótun til framtíðar. Til að veita okkur innblástur í þá vinnu buðum við upp á netfundi með heimsklassa fyrirlesurum sem hugsa í stærsta mögulega samhenginu. Sharan Burrow, framkvæmdastjóri alþjóða verkalýðshreyfingarinnar (ITUC), og John Evans fyrrum fulltrúi vinnandi fólks í ráðgjöf við OECD og yfirhagfræðingur ITUC riðu á vaðið og fjölluðu um sanngjörn umskipti, hvernig nauðsynlegt sé að verja tekjur til að knýja hagkerfið áfram og hvaða skilyrði eigi að setja fyrir stuðningi við fyrirtæki.

Yanis Varoufakis hagfræðingur og fyrrum fjármálaráðherra Grikkja, ræddi meðal annars um hvernig hægt sé að tryggja að arður fyrirtækja fari til fólksins og hann vildi dusta rykið af upprunalegu hlutverki Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem var að vinna fyrir fólk en ekki fjármagn. Adam Tooze, prófessor í sagnfræði við Columbia háskóla, fjallaði svo um þróun alþjóðlega efnahagskerfisins og þróun seðlabanka sem nú dæla fjármagni út í hagkerfin til að halda þeim gangandi.

Rauði þráðurinn í þessum erindum var að hagkerfi heimsins mun taka miklum breytingum í kjölfar kreppunnar og enduruppbyggingin verði að felast í sjálfbærni, jafnrétti og jöfnuði og réttlátri skiptingu gæðanna. Ferðir á milli landa og heimshluta munu taka breytingum, virðiskeðjur þurfa að vera styttri, framleiðsla matvæla tryggð og vinda þarf hressilega ofan af þeirri þróun misskiptingar sem hefur fengið að þrífast í skjóli núverandi efnahagskerfis. Fjármálaöflin munu reyna að nýta þessa kreppu til að skara eld að eigin köku í gegnum samþjöppun eigna og auðs. Hreyfing vinnandi fólks verður því að vera tilbúin með sínar kröfur um sanngjarnari vinnumarkað og réttlátari heim. Sú vinna er hafin hjá ASÍ í sterku alþjóðlegu samstarfi.

Góða helgi, Drífa




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×