Borgarleikhúsið heldur áfram að bjóða upp á beint streymi í samkomubanni.
Í kvöld er komið að leiklestri á hinu geysivinsæla verki Belgíska Kongó eftir Braga Ólafsson. Eggert Þorleifsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Gunnar Hanson og Hjörtur Jóhann lesa og Stefán Jónsson leikstjóri mætir í spjall á undan.
Um Belgíska Kongó
Frumsýnt í Borgarleikhúsinu í maí 2004 í leikstjórn Stefáns Jónssonar. Verkið var eitt þriggja sem tekin voru til sýningar í framhaldi af samkeppni á vegum Leikfélags Reykjavíkur.
Efni Belgíska Kongó er í stuttu máli þetta: Rósar, tveggja barna faðir í Reykjavík, og Rósalind, föðuramma hans sem dvelur á elliheimili í höfuðborginni, hafa ekki talast við í sjö ár vegna hálftilefnislauss ósættis í tengslum við íbúð sem Rósalind leigði barnabarnabarni sínu, dóttur Rósars. Einn daginn tekur Rósar þá ákvörðun að sættast við ömmu sína. Hann heimsækir hana á elliheimilið ásamt ungum syni sínum, Hilmari. Sú heimsókn leiðir síðan í ljós hvort tímabært sé að leita sátta eða hvort jafn óskylt fólk og skyldmennin sem um ræðir hafi nokkuð hvert við annað að segja.