Tilefni þessara ummæla hennar er að herforingjaráð Suður-Kóreu sagði í dag fylgst hefði verið með skrúðgöngu herafla Norður-Kóreu í höfuðborg landsins um helgina. Kim sagði það hafa verið óþarfa enda hafi ekki verið um nokkurs konar heræfingu að ræða og engum hafi verið ógnað.
„Hafa þeir ekkert betra að gera en að fylgjast með hátíðarhöldum í norðri?“ spurði Kim í yfirlýsingu sinni, sem Yonhap fréttaveitan vitnar í.
Þá varaði hún við því að allar skuldir yrðu gerðar upp að endingu.
Fyrir þessa yfirlýsingu höfðu spurningar vaknað varðandi stöðu hennar í Norður-Kóreu þar sem útlit var fyrir að hún hefði verið lækkuð í tign í forsætisnefnd Kommúnistaflokks Norður-Kóreu. Sú ákvörðun var tekin á flokksþingi Kommúnistaflokksins sem stendur nú yfir.
Það virðist staðfest í yfirlýsingunni þar sem titill hennar er lægri í goggunarröðinni en sá sem hún var áður með. Ummæli hennar þykja þó til marks um að hún stýri enn samskiptum ríkjanna, sem hafa verið lítil sem engin eftir að hún tók við stjórn þeirra, og að hún sé enn valdamikil.
Í sumar sagði leyniþjónusta Suður-Kóreu að Kim væri orðin næstráðandi í einræðisríki bróður síns.