Demókratar reyndu í fyrstu að fá Mike Pence varaforseta til að virkja 25. grein stjórnarskrárinnar og koma Trump þannig frá völdum en Pence lýsti því yfir í gær að það myndi hann ekki gera. Nú stendur því til að ákæra Trump, öðru sinni, fyrir brot í embætti. Í raun þurfa Demókratar ekki á stuðningi Repúblikana í fulltrúadeildinni að halda því þar eru þeir með meirihluta, en svo virðist sem þónokkrir þeirra ætli samt sem áður að slást í hópinn með Demókrötum og samþykkja að ákæra forsetann.
Liz Cheney bættist í hópinn í gærkvöldi en hún er hópi valdamestu Repúblikananna í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Cheney, sem er dóttir fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, Dick Cheney, hét því að greiða atkvæði með tillögunni um ákæru og segir hún að aldrei áður í sögu landsins hafi forseti brotið eins alvarlega gegn stjórnarskrá landsins og gegn sjálfu forsetaembættinu.
Cheney sakar Trump um að bera höfuðábyrgðina á því að ráðist var inn í þinghúsið á dögunum þar sem fimm létu lífið. Tveir aðrir fulltrúadeildarþingmenn, John Katko og Adam Kinzinger, hafa einnig sagst ætla að greiða atkvæði með ákærunni.
Trump sjálfur hélt ræðu í gær þar sem hann hafnaði því að bera nokkra ábyrgð á óeirðunum og kallaði tilraunir Demókrata til að koma honum frá völdum nornaveiðar.
Verði samþykkt að ákæra forsetann í fulltrúadeildinni mun málið færast til öldungadeildarinnar þar sem réttað verður yfir forsetanum, að því gefnu að það verði samþykkt. Þar eru Repúblikanar nú í meirihluta, en Demókratar ná þar völdum þann 20. janúar næstkomandi.