„Ég þyki nú vera bjartsýn en ég tel allar líkur til þess að um mitt ár verðum við búin að bólusetja meirihluta þjóðarinnar. Þá erum við auðvitað ekki komin á þann stað að við séum komin með hjarðónæmi,“ sagði Katrín í Víglínunni á Stöð 2 síðdegis.
Hún segir það ráðast af fleiri þáttum, til dæmis hversu mikla vernd hvert bóluefni veitir en það er misjafnt.
„Sum eru að veita kannski 60-70 prósenta vernd og önnur 90 prósenta vernd. Ég treysti mér ekki til að segja til um það [hvenær hjarðónæmi verður náð],“ segir Katrín. +
Hún segist vongóð að við getum fengið meira bóluefni afhent hingað til lands hraðar. Lyfjaframleiðendur keppist nú um það að auka framleiðslugetu sína. Það sé hins vegar ljóst að við munum þurfa að viðhalda sóttvarnaráðstöfunum í einhvern tíma.
„Við munum þurfa að viðhafa sóttvarnarráðstafanir fram eftir ári, ég held að það sé alveg ljóst. Ég tel allar líkur á að þetta gangi með þeim hætti sem ég hef lýst,“ segir Katrín.