Þetta mun vera í fyrsta sinn frá 1869 sem fráfarandi forseti er ekki viðstaddur innsetningarathöfn eftirmanns síns. Pence valdi að vera ekki viðstaddur kveðjuávarp forsetans fyrr í dag.
Það var forseti Hæstaréttar, John Roberts, sem fór með eiðinn fyrir forsetann en hæstaréttardómarinn Sonia Sotomayor fór með eiðinn fyrir Harris.
Þetta mun vera í fjórða sinn sem Roberts er til staðar fyrir forseta sem hefur á honum litlar mætur en bæði Biden og Obama greiddu atkvæði gegn skipun hans við dómstólinn.

Biden notaðist við biblíu sem hefur verið í eigu fjölskyldunnar frá 1893. Hann hefur áður notað biblíuna við innsetningarathafnir, bæði þegar hann varð öldungadeildarþingmaður og þegar hann sór eið sem varaforseti.
Áætlað var að um 25 þúsund hermenn yrðu við öryggisgæslu við athöfnina við þinghúsið. Meðal annarra viðstaddra voru þrír fyrrverandi forsetar; Barack Obama, George W. Bush og Bill Clinton.
Lady Gaga söng þjóðsönginn og Jennifer Lopes „This land is your land“.
Seinna verður sjónvarpað frá viðburði við Lincoln-minnisvarðann, þar sem Bruce Springsteen, John Legend og Justin Timberlake munu koma fram.
Kynnir verður Tom Hanks.
Ný stefna mörkuð, strax í dag
Meðal fyrstu verka Biden verður að gefa út nokkrar forsetatilskipanir þar sem hann mun meðal annars snúa ákvörðun Trump um að segja Bandaríkin frá Parísarsamkomulaginu um aðgerðir í loftslagsmálum, endurkalla leyfið sem Trump gaf út vegna Keystone XL olíulagnarinnar og koma á laggirnar nýrri aðgerðastjórn um viðbrögð gegn Covid-19.
Þá hyggst hann koma á grímuskyldu og fjarlægðartakmörkunum í öllum opinberum byggingum og fella úr gildi reglur sem Trump gaf út um aðgerðir gegn ólöglegum innflytjendum á landamærunum við Mexíkó.
Umræddar reglur greiddu fyrir fjármögnun landamæraveggjarins svokallaða.

Harris bíður hins vegar það verkefni að hafa umsjón með því þegar þrír nýir öldungadeildarþingmenn Demókrataflokksins sverja sinn embættiseið. Þegar það er um garð gengið eiga báðir flokkar 50 sæti í deildinni og Harris mun fara með úrslitaatkvæðið.