Trump var ákærður af fulltrúadeildinni fyrir að hvetja til uppreisnar í tengslum við innrás í þinhúsið í Washington D.C. hinn 6. janúar síðastliðinn. Málið verður tekið fyrir í öldungadeildinni eftir um tvær vikur.
Til að sakfella forsetann fyrrverandi þurfa tveir þriðjuhlutar þingmanna öldungadeildarinnar að vera samþykkir. Það þýðir að allir þingmenn demókrata þurfa að segja já og að minnsta kosti sautján þingmenn repúblikana.
Í dag var hins vegar gengið til atkvæða um frávísunartillögu repúblikanans Rand Paul, sem hefur haldið því fram að ákærurnar standist ekki stjórnarskrá landsins þar sem Trump er ekki lengur forseti.
Tillagan var felld en aðeins fimm þingmenn Repúblikanaflokksins greiddu atkvæði á móti; Lisa Murkowski, Susan Collins, Mitt Romney, Ben Sasse og Patrick Toomey, sem öll hafa verið gagnrýnin á forsetann fyrrverandi.
Auðvitað gæti eitthvað breyst á næstu tveimur vikum en miðað við þessar niðurstöður eru afar litlar líkur á að Trump verði fundinn sekur í öldungadeildinni.
Meðal þeirra sem greiddu atkvæði með tillögu Paul var Mitch McConnell, leiðtogi minnihlutans, sem er þó sagður þeirrar skoðunar að Trump eigi sannarlega nokkra sök á því hvernig fór.
Greint var frá því í fjölmiðlum vestanhafs í dag að McConnell og Trump hefðu ekki rætt saman frá 15. desember síðastliðnum.