Á afhendingunni verða veitt Hönnunarverðlaun Íslands, Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands og einnig verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun ársins 2020.
Sýnt verður frá verðlaununum á sjónvarpsstöð Vísis og í streymi sem verður aðgengilegt hér fyrir neðan.
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda er vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast. Að verðlaununum standa Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Landsvirkjun, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.
Útsendingunni er lokið og er hægt að horfa á upptöku af henni hér fyrir neðan.
Hönnunarverðlaun Íslands eru peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 krónur. Þau verkefni sem eru tilnefnd að þessu sinni eru Ýrúrarí fyrir Peysa með öllu, Studio Granda fyrir Drangar og Flothetta fyrir Flotmeðferð. Hönnunarverðlaun Íslands beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.
Besta fjárfesting í hönnun er viðurkenning sem veitt er fyrirtækjum sem hafa hönnun og arkitekúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. Öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi koma til greina.
Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands voru veitt í fyrsta skiptið árið 2019. Heiðursverðlaun er viðurkenning veitt einstaklingi sem þykir hafa skilað framúrskarandi ævistarfi á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi.

Dómnefndina í ár skipa:
- Sigríður Sigurjónsdóttir formaður, Hönnunarsafn íslands
- Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, LHÍ
- Sigrún Unnarsdóttir, fatahönnuður MH&A
- Þorleifur Gíslason, grafískur hönnuður MH&A
- Paul Bennett, hönnunarstjóri IDEO, MH&A
- Margrét Kristín Sigurðardóttir, SI
- Hörður Lárusson, grafískur hönnuður MH&A
- Sigrún Birgisdóttir, arkitekt, LHÍ