Fjórtán létust svo staðfest hafi verið en allt að 170 er saknað. Hamfarirnar áttu sér stað í héraðinu Uttarakhand í gærmorgun en þegar jökullinn brotnaði fór gríðarlegt magn af ís ofan í á sem rennur niður í dal og framkallaði flóðbylgjuna sem eirði engu.
Hún tók með sér fimm brýr á leiðinni og eyðilagði tugi heimila við árbakkann. Þá lenti hún á vatnsaflsvirkjun neðar í ánni og gjöreyðilagði hana auk þess sem önnur 500 megavatta virkjun neðar í ánni sem var í byggingu eyðilagðist líka.
Margir þeirra sem saknað er eru verkamenn sem unnu við virkjunina og er talið að hluti þeirra gæti verið á lífi í göngum sem verið var að grafa á svæðinu. Í gær tókst að bjarga tólf mönnum sem festust inni í öðrum göngum í nágrenninu.