Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að talsvert af fólki hafi verið í miðbænum í gærkvöldi.
„Það var samt það gott ástand að þrátt fyrir að það hefði verið farið í eftirlit á 20 veitingastaði þá voru einungis gerðar athugasemdir við tvo þeirra þannig ég vil heilt yfir hrósa veitingamönnum fyrir að standa vaktina vel,“ segir Ásgeir í samtali við fréttastofu.
Einn veitingastaður má búast við sekt fyrir brot á sóttvarnalögum annars vegar og brot á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald hins vegar, þar sem veitingahald var ekki samkvæmt leyfi. Annar veitingastaður verður hugsanlega sektaður fyrir brot á sóttvarnalögum þar sem fjöldatakmarkanir voru ekki virtar.
Ásgeir á von á að málunum tveimur ljúki með sekt.
„Það er ekkert brot skráð þar sem skemmtistaðirnir voru of lengi opnir en fólk á að vera farið klukkan tíu. Þannig það er ekkert skráð þannig og ég get ekki betur séð en að miðborgin hafi verið komin í ró milli ellefu og tólf,“ segir Ásgeir.