Mörgum var brugðið, ekki síst fimmhundruð starfsmönnum í Straumsvík, þegar eigandinn Rio Tinto hótaði lokun álversins í febrúar í fyrra og hóf jafnframt opinberar skylmingar við Landsvirkjun. En í dag náðist sátt með undirritun nýs raforkusamnings sem eyðir óvissu um rekstur álversins.

„Já, þeirri óvissu er eytt. Við náðum samkomulagi við Landsvirkjun sem gerir okkur samkeppnishæf, - vegna þess að raforkuverðið er komið á þann stað að við erum samkeppnishæf. Og það léttir þá af óvissu um lokunina. Og við munum setja verksmiðjuna á fullan kraft aftur,“ segir Rannveig í viðtali við Stöð 2.
„Við förum upp í full afköst. Við erum búin að vera á minnkuðum afköstum núna um allt of langt skeið og núna förum við á fulla ferð aftur.“

Í sameiginlegri fréttatilkynningu fagna báðir aðilar en trúnaður ríkir áfram um orkuverðið. Þó er upplýst að tekin er á ný upp tenging við álverð en að litlum hluta. Þá er samningurinn áfram tengdur við bandaríkjadal og vísitölu í Bandaríkjunum.
„En að hluta til tengdur við álverð sem hjálpar okkur á erfiðum tímum. Síðan er allskonar sveigjanleiki í honum sem hjálpar Landsvirkjun. Þannig að það er í þessum samningi „win-win“ fyrir báða aðila og kemur báðum aðilum vel.
En hann er trúnaðarmál, þessi samningur, þannig að það er ekki hægt að greina nákvæmar frá því,“ segir Rannveig.
Hún segir að starfsmönnum í Straumsvík sé létt.
„Já, það er léttir hjá okkur. Þetta er búið að liggja á okkur eins og farg í dálítið langan tíma og þessi óvissa verður alltaf meiri og meiri eftir því sem tíminn líður. Þannig að það er mikill léttir að þessu skyldi ljúka og það skyldi takast að ná þessu samkomulagi. Það er mjög mikill léttir og mikill gleðidagur hjá okkur,“ segir forstjóri ÍSAL í Straumsvík.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: