Auk Trumps er Rudy Giuliani, einkalögmaður hans, og öfgahóparnir Proud Boys og Oath Keepers, nefndir í kærunni. Kæran er talin ein af mörgum sem forsetinn fyrrverandi stendur frammi fyrir í kjölfar sýkni sinnar í öldungadeildinni og er sú fyrsta sem þingmaður leggur fram, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Trump og Giuliani eru sakaðir um að hafa lagt á ráðin um að hvetja til árásarinnar á þinghúsið með því markmiði að stöðva formlega staðfestingu niðurstaða forsetakosninganna í nóvember, sem Joe Biden vann.
Kæran byggir á lögum sem kallast Ku Klux Klan lögin og fjalla meðal annars um tilraunir til að koma í veg fyrir störf þingsins. Í henni segir að Trump og Giuliani hafi ætlað sér að koma í veg fyrir staðfestingu niðurstaðanna og hafi lagt grunninn að árásinni þar sem fimm manns létu lífið.
Þeir hafi um langt skeið staðhæft við stuðningsmenn forsetans og almenning að kosningunum hafi verið stolið af honum og ýtt undir ofbeldi. Það hafi þeir gert þrátt fyrir að geta ekki fært sannanir fyrir máli sínu og að ásökunum þeirra hafi sífellt verið hafnað af embættismönnum.
„Hin skipulagða atburðarás sem fór fram á Save America samkomunni og með árásinni á þinghúsið var hvorki slys eða tilviljun,“ segir í kærunni. Þar segir að atburðarásinni hafi verið ætlað að stöðva störf þingsins.
Save America var nafnið á samstöðufundi Trumps með stuðningsmönnum sínum í Washington DC í aðdraganda árásarinnar. Þar sagði Trump stuðningsmönnum sínum að halda til þinghússins og berjast fyrir landi þeirra.
Forsetar Bandaríkjanna hafa lengi notið verndar gagnvart kærum sem þessum. Þessi kæra beinist þó að Trump sjálfum og er tekið fram í henni að hegðun hans og framferði í tengslum við árásina hafi ekki komið opinberum störfum hans við.
Í viðtali við AP segir einn lögmanna Thompsons að það að hvetja til óreiða eða reyna að stöðva störf þingsins geti ekki talist hluti starfa forseta.