Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni en áður höfðu fjórir þegar verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins. Þeir sem eru í haldi eru allir sagðir vera á fertugsaldri fyrir utan einn sem er á fimmtugsaldri. Að sögn lögreglu er ekki hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Mennirnir sem voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í kvöld fram til 24. febrúar voru handteknir í aðgerðum lögreglu í gær þar sem húsleit var gerð á þremur stöðum. Alls voru fjórir handsamaðir í gær en ekki hefur verið farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim fjórða. Hafa nú átta verið handteknir í tengslum við rannsóknina á manndrápinu.
Haft var eftir Margeiri Sveinssyni, yfirlögregluþjóni hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að þáttur þess fjórða sem handtekinn var í gær væri enn til skoðunar.
Hann sagði rannsókn málsins vera eina þá umfangsmestu í seinni tíð og að ekki væri enn ljóst hver beri ábyrgð á árásinni. Þá hefur lögreglan ekki viljað gefa upp hvort skotvopnið sem notað var til að ráða Armando Beqirai bana sé fundið.
Fréttin hefur verið uppfærð.