Skoðun

SALEK eða öfluga verkalýðsbaráttu í VR?

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar

Um það snúast þessar kosningar raunverulega.

Valkosturinn gæti varla verið skýrari og ætti að auðvelda valið fyrir félagsmenn VR.

Helstu baráttumál mótframboðsins til formanns VR eru nánast þau sömu og SA, og fyrrum forseti ASÍ Gylfi Arnbjörnsson stóðu fyrir. Sem er norræna samningalíkanið SALEK, og að fólkið (eigendur lífeyrissjóðanna) sé ekki að skipta sér af lífeyrissjóðunum og starfsemi þeirra. Einnig að verkalýðshreyfingin sé ekki að skipta sér af pólitík eða þvælast fyrir sérhagsmunaöflum þegar þau þrýsta á stjórnvöld í að fá sínar eigin leikreglur gegnum löggjafann.

Eitt af helstu loforðum mótframboðsins gæti ekki fallið betur að áhugamálum SA sem er að sundra samstöðu hreyfingarinnar. En þar er lofað að mynda ekki bandalag með ákveðnum félögum innan ASÍ fyrirfram. Og það án þess að kröfugerðir eða áherslur félaganna innan ASÍ liggja fyrir.

Úr viðtali við Magnús L. Sveinsson fyrrum formann VR.

„Árið 1955 fór lægst launaða fólkið í Reykjavík og Hafnarfirði í 6 vikna verkfall til að ná samningum um atvinnuleysisbætur. 6 vikna verkfall hjá lægst launaða fólkinu sem á þeim tíma átti varla fyrir mat hvað þá meiru. Þessar fórnir hjá lægst launaða fólkinu færðu öllum hinum þau réttindi sem við teljum svo sjálfsögð í dag.“

Höfum þetta í huga þegar við heyrum fullyrðingar um að ólíkir hópar eigi ekki samleið í verkalýðsbaráttu.

Stærstu sigrarnir og mikilvægustu réttindin, sem við teljum sjálfsögð í dag, komu í gegnum samtakamátt heildarinnar. Samtakamátt og samstöðu ólíkra hópa.

Þegar uppi er staðið erum við ekkert án hvors annars.

Höfum það hugfast þegar við göngum til kosninga í VR að niðurstaðan getur haft mikil áhrif á lífskjör okkar til framtíðar. Það er hart sótt að launafólki og réttindum okkar alla daga. Öflug forysta sem sækir fram og stendur í lappirnar eru lykillinn að árangri.

Kjósum áframhaldandi öfluga forystu í VR.

Höfundur er formaður VR.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×